Friday, June 29, 2007

Sumarið

er yndislegt. Yndislegt, yndislegt, yndislegt. Eyddi deginum í dag á Austurvelli í góðra frænku hópi. Ég og hin ferfætta fórum svo í fjöruferð í kvöld, kl hálf10, 14°C hiti og ég á hlírabol. Yndislegt.

Thursday, June 28, 2007

Besti vinur mannsins eða besti þræll hundsins

Ég er að passa hina ferfættu systur mína. Það er sko meira en að segja það. Ég hef aldrei verið ein með litlu prímadonnuna áður og jesús minn... það snýst allt um hundinn, er hundurinn búinn að fá hreyfingu í dag, er hundurinn búinn að fá að borða í dag, er hundurinn búinn að skíta í dag... Hún er samt orðin ótrúlega háð mér, sefur við hliðina á rúminu mínu, bíður eftir mér fyrir utan klósettdyrnar þegar ég er á klósettinu, ýlfrar og bíður við dyrnar þegar ég fer út. Greyið litla.

Svo má ekkert vera með hunda alls staðar. Annars staðar dauðskammast maður sín fyrir litla borgarhundinn. Ég fór með Emblu litlu í heimsókn á sveitabæ, auðvitað eru hundar ekki inni á sveitabæjum. Embla beið úti í bandi meðan við snæddum kvöldverð. Skyndilega heyrast skelfingargelt úti... 5 kýr höfðu komið til að kíkja á þennan furðulega gest og aumingja Embla vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, hvaða hrikalega skelfilegu risahundar voru þetta nú eiginlega? Hún hefur nú samt eytt um mánuði á hverju sumri á ferðalagi um ísland en þetta var nú eitthvað scary, ein úti á túni með 5 kúm!!! Síðar um kvöldið gekk húsfreyjan svo úr rekkju fyrir borgarhundinn. Já borgarhundurinn gat ekki verið einn um nóttina og gat ekki borðað kjúklinganammið sem henni var boðið því hún er með OFNÆMI fyrir því!

Er því skrýtið að maður velti fyrir sér hvort hundurinn sé besti vinur mannsins eða maðurinn besti þræll hundins?
Æ, mér þykir samt voða vænt um hana. :)

Road trip

Fór í road trip með Höllu og hinni ferfættu á mánudag. Heimsóttum Guðnýju, Sigrúnu, Þóru og Sólveigu norður á land. Ógeðslega gaman en jesús minn kuldinn!!! 1°C og rok við Kröflu meðan borgarbúar böðuðu sig í sólinni í 18 stiga hita! En ég baðaði mig bara í höfuðborgarMallorcaveðrinu í dag.
Heimsóttum Baldursheim, sveitabæinn hennar Sólveigar. Baldursheimur er með sérveg! Vegur nr 849! Héðan í frá verður Sólveig kölluð Solla 849.
Á mánudaginn fórum við í baðlónið í Mývatnssveit og spjölluðum þar við 3 Hollendinga. Á þri-kvöldið eldaði svo Þóra dýrindismáltíð fyrir okkur Höllu, Sólveigu og Ernu í fínu íbúðinni sinni á Akureyri.
Í dag fór ég svo í úrabúð á Laugaveginum að sækja úrin mín úr viðgerð og hitti þar fyrir Hollendingana úr baðlóninu í Mývatnssveit. Já Ísland er lítið og þeir fengu það beint í æð :)

Sunday, June 24, 2007

Gæsagangur

Ég gæsaði frænku mína í gær. Stórkostlegur dagur, stórkostlegt veður, stórkostleg gæs og stórkostlegar stelpur. Þetta var vægast sagt frábær dagur. Meira segi ég ekki. Kemur í ljós í ákveðnu brúðkaupi...

Friday, June 22, 2007

Súperþjónusta

Í dag fór ég glöð og kát í útivistarvöruverslun eina með útskriftarpeninginn minn með það að markmiði að eyða honum. Lenti á dreng sem vissi ekkert hvað hann var að tala um. Hefði eins getað beðið skó um aðstoð. Sleppti drengstaulanum bara lausum og fór að skoða sjálf. Þá bar þar að renglulegan ungan mann sem bauð fram aðstoð sína. Jú, jú... allt í lagi að prófa einhvern annan. Heyrðu hann var bara eins og alfræðiorðabók um útivistarvörur og þvílíkur munur. Það er eitthvað við fólk sem veit um hvað það er að tala... Það lá við að ég segði: hei, I have suddenly fallen in love with you, will you marry me? Ég sleppti því en gekk út með gullfallegan nýjan fallegan stóran fallegan göngupoka.
Nú horfi ég á göngupokann minn eins og systir mín horfir á tölvuna sína... sjá HÉR.

Thursday, June 21, 2007

Pirringur

Það á náttúrulega að svipta suma ökuleyfi... ekki vegna glæfraaksturs heldur vegna hægagangs og viðbragðsleysis. Ég fór niður í bæ áðan, allar götur lokaðar, óþolandi, og raðir alls staðar. Mikið afskaplega getur fólk farið hægt. Tók mig hálftíma að komast í ákveðna verslun. Þegar ég loksins stóð við afgreiðsluborðið og var að fara að borga... Veskið var ekki í töskunni! Sá það fyrir mér liggjandi á kommóðunni inni í anddyri heima. Helv... Ef eitthvað var enn meiri hægagangur í umferðinni á leiðinni heim... gleði gleði.

En út í alvöru gleðisálma: Hún BaraSara á afmæli í dag. Til hamingju með daginn, Sara! :)

Leggjabrjótur

Ég gekk Leggjabrjót í gærkvöldi með Pétri og Bjössa og náttúrulega hinni ferfættu systur minni. Við fórum á einum risabíl og einum litlum bíl. Við byrjuðum á að keyra á Þingvelli og skilja risabílinn eftir þar. Svo héldum við af stað á litla bílnum.... og festum hann, ofan á risarisarisastórum steini. Hann bara haggaðist ekki af steininum. Svo við lyftum bílnum. Já við LYFTUM bílnum af steininum, við þrjú. Ég hef trú á því að mínir miklu ofurkraftar hafi haft mikið að segja í þeim lyftingum. Restin af ferðinni gekk áfallalaust og var reyndar alveg frábær. Komum reyndar ekki í bæinn aftur fyrr en kl 3 í nótt... en hvað er það fyrir iðjuleysinga eins og mig og Bjössa. Aumingja Pétur hins vegar...

Tuesday, June 19, 2007

Af jeppagellu á Þingvöllum

Á sautjándanum fór ég í örlitla jeppaferð með honum föður mínum. Nú kann ég á diff lock, stabilizer, front lock etc etc etc auk þess sem ég kann að gera við dekk alveg sjálf. Mér finnst ég ógurleg töffarakona.
Í gær fórum svo ég og hin ferfætta systir mín í Skógarkotsheimsókn á Þingvelli. Þar var nú gott að vera, afgangar úr útskriftarveislu, pottur í sólinni og grill um kvöldið í góðra vina hópi. Hvað er betra en það?

Útskrift

Útskriftardagurinn var yndislegur, veislan í Paradís hjá afa var yndisleg, samkoman hér heima um kvöldið yndisleg og djammið var skemmtilegt. Hreint út sagt yndislegur dagur.
Takk fyrir mig, þið öll :)

Friday, June 15, 2007

Hippókratesar-eiðurinn

Í dag var okkur bekknum + mökum boðið í boð á vegum Læknafélags Íslands. Tilgangurinn var að skrifa undir Hippókratesar-eiðinn en hann er siðfræðilegur eiður sem læknar hafa skrifað undir síðan á 4. öld fyrir Krist. Það er svolítið gaman að því að íslenskir læknar skrifa allir undir eiðinn í sömu bókina. Því er hægt að fletta upp undirskriftum íslenskra lækna langt aftur í tímann.

Í íslenskri þýðingu eiðsins stendur m.a. eftirfarandi:

- Ég sver við Apolló lækni, við Eskuláp, við heilbrigðina, við Panakea og alla guði og gyðjur, er séu mér vitni, að ég mun kappkosta að halda þennan eið...
- Kennara minn í þessum fræðum gengst ég undir að virða til jafns við foreldra mína; deila með honum brauði mínu og fé ef hann er í fjárþröng, líta á venslamenn hans sem bræður mína og kenna þeim fræði mín endurgjaldslaust... (gæti orðið dýrt!)
- Ef ég held þennan eið trúlega og rýf hann aldrei, megi ég þá ævinlega öðlast góðan orðstír og njóta almennrar virðingar vegna lífernis míns og listar minnar, en gerist ég eiðrofi og griðníðingur, megi þá hið gagnstæða verða hlutskipti mitt.

Þetta hef ég nú skrifað undir.
Myndir HÉR.

Wednesday, June 13, 2007

Það er hættulegt

að vera duglegur. Ég var að moka áðan, já moka möl úr kerru. Já, ég stóð í kerrunni og já ég var auli og gekk fram á brúnina þannig að hún sporðreistist. Þetta hefur örugglega verið mjög skondin sjón. :)
En ég uppskar bólgið hné, aumingja hnéð. Og útskriftarkjóllinn er ekki nógu síður til að hylja bólgin hné. Hvernig getur svona gerst 2 dögum fyrir mikilvægan kjóladag? Eða betri spurning, af hverju er ég að moka möl 2 dögum fyrir mikilvægan kjóladag? Maður spyr sig.

Monday, June 11, 2007

Símavinurinn minn

Nýi klikkaði kínverski símavinur minn lætur mig ekki í friði. Hann hringir og hringir og sendir sms endalaust...

Sunday, June 10, 2007

Skrýtin

Í gær vaknaði ég í rúminu mínu í öllum fötunum OG kápunni UNDIR sænginni og höfuðið var fótamegin.

Saturday, June 9, 2007

Færeysk-íslensk orðabók

Sá þetta í Blaðinu:
hárfríðkari = hárgreiðslumaður
viðgerð = aðgerð
sálarhirðir = sálfræðingur
sjálfvbrúnaraviðgerð = tilbúin brúnka

Friday, June 8, 2007

Alvöru

Ég er að fara að vinna sem alvöru læknir eftir 3 vikur og 3 daga.
Shit.

Thursday, June 7, 2007

Dularfullt símtal

Ég fékk símtal í nótt. Eins og alltaf þegar ég er vakin af símanum er ég hálfrugluð... geri mér enga grein fyrir því hvað klukkan er, hvort ég hafi verið sofandi eða hvað.

Ég: "Halló".
Karlmaður á bjagaðri ensku: "Hello, who is this?"
Ég: "Ha?"
Hinn: "Who is this? You called me". Allt í einu tengdi ég... Númerið sem hafði hringt var kínverska númerið hennar Ástu sem býr í Kína. Ég hafði sent Ástu sms í tilefni afmælisins hennar í síðasta mánuði... greinilega ekki borist henni heldur einhverjum kínverskum brjálæðingi.
Ég: "No, I sent my friend an sms but I´ve obviously got the wrong number".
Hinn (skildi greinilega ekki alveg): "What´s your name?"
Ég enn í svefnrofunum: "Ha? Berglind. Are you from China?"
Hinn: "Yes... can I call you back in a moment?"
Ég enn rugluð: "Yes, bye". Leit á klukkuna, hún var 05:05. Fattaði að þetta númer hafði hringt í mig fyrir 2 mánuðum, ég hafði flett upp landsnúmerinu, séð að það var frá Kína og sett það inn í símann minn sem Ásta í Kína. Lagðist á koddann og steinsofnaði.

Nokkrum mínútum síðar hringir sama númer aftur.

Ég: "Hello... no you know what, you called me 2 months ago"
Hinn babblar eitthvað, svo: "What´s your name? What´s your nationality?"
Ég: "Berglind. Icelandic." Hvað er ég að gefa bláókunnugum manni svona upp um miðja nótt?!
Ég: "It´s nighttime here, I was sleeping"
Hinn: "Sorry, when can I call you again? It´s morning here."
Ég: " I was sleeping, it´s nighttime" Ein kolrugluð.
Hinn: "When can I call you again?"
Ég: "Ha? Why?"
Hinn: "I like to get to know new people all around the world."
Ég: "I don´t know. I have to go to sleep."
Hinn: "But when can I call you again..."
Ég: "Good night"

Ég á nýjan klikkaðan kínverskan símavin.

Saturday, June 2, 2007

Reykingabann

Ég kíkti aðeins út á lífið í gær. Vaknaði í morgun og það var ekki reykingalykt af hárinu, ekki reykingalykt af rúmfötunum, ekki reykingalykt af fötunum. YNDISLEGT!
Ég skil sjónarmið veitingamanna en ég ætla að vera sjálfselsk í skoðunum mínum á reykingabanninu. Yndislega reykingabann.

Fallega fólkið og Embla fóru svo á Móskarðshnúka í dag. Búið að vera á planinu í mörg ár, draumurinn rættist í dag.

Brjóst Íslands, Móskarðshnúkar des 2006

Friday, June 1, 2007

Aaaahhhh

Ég gekk út í morgun, vindurinn var ekki kaldur, það var lykt af nýslegnu grasi í loftinu... ummmm... Ég ELSKA sumarið. Væmið en satt.