Saturday, December 22, 2007

Í gær

lærði ég mikilvæga lexíu. Aldrei fara að djamma eftir jólahlaðborð.
Maður fær nefnilega illt í magann.

Friday, December 7, 2007

Punktur og basta

Í vinnunni minni dikterar maður ofsalega mikið, þ.e. talar inn á spólur fyrir læknaritarana svo þeir geti gert læknabréf etc. Núna er reyndar ekki lengur notast við spólur heldur símana, maður hringir í ákveðið númer og dikterar þannig. Þegar maður dikterar segir maður alltaf - eða alla vega ég - punktur og komma o.s.frv þar sem maður vill að sé punktur og komma... 75 ára maður með hjartabilun KOMMA leitar á bráðamóttöku vegna brjóstverkja PUNKTUR.
Í fyrradag þurfti ég svo að hringja í móður sjúklings sem ég hafði hitt á slysó. Hún svaraði ekki í gemsann svo ég talaði inn á talhólfið hennar. Þegar ég var búin að segja allt sem ég þurfti að segja fattaði ég mér til mikillar skelfingar að ég hafði sagt PUNKTUR á eftir hverri einustu setningu! OMG! Ég panikaði svo að ég gat ekki einu sinni afsakað mig heldur sagði ég bara takk fyrir og skellti á. Ætli konan muni nokkurn tímann eyða þessum skilaboðum?!
Svo kom ég heim til mín og hakkaði lokið á mixaranum í mixaranum. Góður dagur.

Thursday, November 22, 2007

Ertu single?

ÞETTA verða allar desperate ungar konur að skoða.

Wednesday, November 21, 2007

Langir fattarar


Stundum misskilur maður hluti svo hræðilega. Svo hræðilega að manni finnst bara ekkert annað koma til greina og maður pælir ekki einu sinni í því. Stundum misskilur maður hlutina þannig í mörg ár. Og af hverju er ég að skrifa þetta... jú kannski var ég að fatta í dag að ég er búin að vera misskilja einn mjög stóran hlut af starfsemi unglækna síðan ég mátaði slopp í fyrsta sinn. Æææ... ekki svo gaman að fatta þannig... sérstaklega ekki fyrir framan aðra. En jæja...
Það er ágætt að fatta svona meðan maður er ennþá bara kandídat ;)

Thursday, November 15, 2007

Valkvíði

Ég hef hingað til ekki getað ákveðið hvað ég á að verða... þetta er mjög erfitt. Fékk hins vegar afhent skema á fundinum í gær...



Ég held það sé ákveðið... við verðum öll bráðalæknar.

Konulæknar

Ég mætti á fund hjá Félagi kvenlækna í gær. Eina ástæðan fyrir því að ég mætti er sú að Edda var að fá verðlaun fyrir að vera hæsta konan á kandídatsprófinu í vor (reyndar var hún hæst yfir allan bekkinn). Ég hef alltaf haft pínu fordóma fyrir svona kvenfélögum... mér finnst bara að það eigi að vera jafnrétti og það þurfi ekkert að stofna einhvern saumaklúbb til þess. Ég skipti hins vegar algjörlega um skoðun á þessum fundi! Auðvelt að fá mig á sitt band ;)
Held það sé nefnilega rétt hjá formanninum að manni finnst þetta félag pínu asnalegt núna en eftir því sem við fáum meiri starfsreynslu sjáum við að félagið vinnur þarft starf. Kom mér á óvart að það eru um 1200 læknar starfandi á Íslandi, þar af aðeins um 350 konur. Mér var einmitt sögð saga af spítalanum um daginn... þar voru 5 konur á teymi, sérfræðingur, deildarlæknir, aðstoðarlæknir og 2 læknanemar. Þær gengu stofugang samviskusamlega eins og góðu teymi sæmir... síðar um daginn kvörtuðu einstaka sjúklingar yfir því að enginn læknir hefði litið til þeirra þennan daginn. Já svona er þetta... þegar maður er niðri á bráðamóttöku og er bara í spítalabol og spítalabuxum en engum sloppi er það undantekning ef enginn heldur að maður sé hjúkrunarfræðingur... þrátt fyrir að maður kynni sig og er auk þess skreyttur með hlustunarpípu og nokkrum stykkjum af píptækjum.

En alla vega... þessi fundur í gærkvöldi reyndist hin besta skemmtun... var svolítið eins og risastór saumaklúbbur! Við þessar 10 úr hópi unglækna sem mættum skemmtum okkur konunglega... ég hef ekki grátið svona mikið úr hlátri lengi.
Verð þó að viðurkenna að ég fékk gífurlegan kjánahroll alveg niður í tær þegar kallað var yfir hópinn: "Áfram konur" og allir stóðu upp og klöppuðu. Þá leið mér illa... mig langaði helst að sitja sem fastast en þar sem ég er ekki beint þekkt fyrir að ráðast á móti straumnum asnaðist ég á lappir og lét lófana snertast... en laust þó

Monday, November 12, 2007

híhíhí

Mæli með að allir skoði ÞETTA blogg yfirbloggarans... alla vega allir sem hafa komið nálægt skurðstofu...

Sniðugt


Tuesday, October 30, 2007

Hvernig setur maður saman strönd með 29 karlmönnum á?

Ég var í mæðginaheimsókn í London, ég, mamma, steinunn og siggi fórum og heimsóttum ráðsett par í Islington í London, Karen og Ingva. Rosa fín íbúðin þeirra, reyndar svo mikill raki að pappír er blautur viðkomu. Versluðum, fórum á kaffihús og söngleiki, yndisleg ekta hlátraskallaferð. Byrjaði með miklum hlátrasköllum við lendingu á Stansted í London þegar einn farþeginn kallaði ógleymanlegan brandara yfir alla farþegana, af einhverjum orsökum fannst mér og steinunni hann eitthvað sérstaklega fyndinn og hlógum vandræðalega lengi og hátt. Best var þó í morgun þegar ég og steinunn vorum á leiðinni heim aftur og vorum búnar að snooza 2x, liggjum enn undir sæng og þá heyrist í Steinunni: "Hvernig setur maður saman strönd með 29 karlmönnum á?" Ég leit furðu lostin á hana, þá bætir hún við: " Ég veit ekki af hverju ég sagði þetta, sleppið þessu". Ég missti mig. Hún hafði þá rétt sofnað, sagt þetta án þess að vita af því en heyrði það samt sjálf! Kannski smá had to be there húmor...

Friday, October 19, 2007

Flottastur

Þetta er mesta töffaragæludýr í heimi. Ólöf Inga, ég bara verð að fá að setja þennan link hérna... Ýtið HÉR

Tuesday, October 16, 2007

síra Jón

Ég er búin að komast að því að hér á litla Íslandi er alls ekki sama hvort þú ert Jón eða séra Jón. Heimsins mestu spjátrungar bráðna eins og smjör á tælenskri strönd ef þú ert séra Jón. Hvílík ósanngirni, maður verður svo reiður fyrir hönd þeirra sem minna mega sín.

Spítalalífið

Það var bilað að gera í dag. BILAÐ. Ég var á stofugangi til 13:45, já þið lásuð rétt, 13:45. Já hann tók 5 klukkutíma. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er það mjög langt. Mjög langt. Þá átti svo eftir að vinna alla deildarvinnuna.
Ég gladdist mjög þegar ég uppgötvaði að ég átti hólf, já hólf hjá læknariturum hjartadeildar. Ekki það að eitt hólf gleðji mitt litla stressaða hjarta neitt mikið heldur var póstkort í hólfinu. Póstkort frá sjúklingi sem ég hitti í sumar, erlendum ferðamanni sem býr hinum megin á hnettinum. Hann sem sagt hafði fyrir því að grafa upp nafnið mitt og senda mér þakkarbréf. Mikið hlýnaði litla hjartanu. This is why it´s worth it.
En ji minn hvað líf mitt gengur út á spítala... ég tala bara um spítalann og heima hjá mér horfi ég bara á spítala.

Sunday, October 14, 2007

Friðarsúlan hennar Yoko

Mér finnst ljóssúlan hennar Yoko Ono ógeðslega flott. Bæði hugmyndin á bak við hana og súlan sjálf. Í gærkvöldi var nær alveg heiðskírt og það var eins og súlan næði bara lengst út í geim. Flott framtak. Gagnrýnisraddir segja þetta hallærislegt, að það ætti frekar að nýta kraftana í að koma raunverulega á friði. Ég er engan veginn sammála, mér finnst þetta flott tákn um að það er til fólk sem vill frið og að það er til fólk sem gerir eitthvað í því.

Thursday, October 11, 2007

OMG

Ég var í vinnunni um daginn (eins og alltaf), var í mat og þá segir vinkona mín: "Berglind það er mynd af þér á desktopinu á tölvunni niðri á bráðamóttöku". Mér svelgdist á: "WHAT?!!!!"
"Já það er myndin af þér úti í Tælandi. Settirðu hana ekki sjálf á desktopinn?"
"WHAT?! NEI!" Ég fylltist hryllingi, mynd af mér í hlíralausum kjól með kokkteil á tölvunni niðri á bráðamóttöku, tölvunni sem allir læknar nota! Hringdi í aðra vinkonu mína sem vinnur á bráðamóttökunni þennan mánuðinn: "ER MYND AF MÉR Á DESKTOPINU?!"
"Já, settirðu hana ekki sjálf?"
"WHAT NEI!!!"
Tveir deildarlæknar á skurðdeild komu og settust hjá okkur: "Já eruð þið að tala um myndina af þér á desktopinu niðri á bráðamóttöku, hahahaha."
Oh my god. Berglind hleypur niður á bráðamóttöku, fjandans myndin á tölvunni og ekki bara ein heldur margar litlar! Berglind hægrismellir, ýtir á desktop, change picture -> EKKI HÆGT! Það á ekki að vera hægt að breyta myndum á desktopinu á tölvunum á Landspítalanum. Oh my god. Ég þarf að hringja í tölvudeildina til að fá aðstoð: "Já, góðan daginn... Berglind heiti ég, kandídat á bráðamóttökunni, ég er með svolítið skrýtið vandamál... ÞAÐ ER MYND AF MÉR Á DESKTOPINU Á BRÁÐAMÓTTÖKUNNI OG ÉG GET EKKI LOSNAÐ VIÐ HANA".
"Hmmm... (smá hlátur)" og svo lagar hann þetta. Ég var samt með hann í símanum í korter. Svo var hann búinn að laga þetta, ég skelli á og púmm... myndin birtist aftur! Fuck! Ég hringi aftur í tölvudeildina og einhver annar svarar: "Já, góðan daginn... Berglind heiti ég, kandídat á bráðamóttökunni... ég var að tala við ykkur rétt áðan, ég er með svolítið skrýtið vandamál..."
Þá heyrist á hinni línunni: "JÁ, ÉG VAR EITTHVAÐ BÚINN AÐ HEYRA AF ÞESSU... hahaha" OH MY GOD! Var með þennan á símanum líka í svona 15 mín en honum tókst að laga þetta. Skýringin var að þetta hefði sennilega gerst óvart... það á enginn að geta breytt myndunum.. málið var að 3 dögum áður var ég að downloada myndum af myndasíðunni minni til að geta sett á facebook, það var reyndar í annarri tölvu en svona er kerfið vitlaust. Var reyndar búin að eyða þeim myndum en vó... never again!

Fyrir forvitna þá er ÞETTA myndin sem hékk margfölduð á desktopinu á bráðamóttökunni í 3 DAGA! já 3 DAGA!!! Og maður sem er að reyna að vera virðulegur læknir...

Kom svo upp á deild og sagði hinum unglæknunum frá þessu... og allir bara: Já, ég sá hana í gær! Halló!!! :)

Sunday, September 23, 2007

Hver er maðurinn?




Meira eftir 2 vikur...

Wednesday, September 19, 2007

Grey´s

Þá er ég loksins komin í hóp þeirra sem hafa séð Grey´s anatomy. Ég er búin að horfa á 3 fyrstu þættina í fyrstu seríunni and I´m torn...

Stelpulega séð... yndislegir þættir. Grín, rómantík, rómantískt grín... litli góði strákurinn sem allir halda að sé hommi, módelið sem má ekkert ljótt sjá, myndarlegi arrogant strákurinn sem heldur alltaf að hann hafi rétt fyrir sér, kalda stelpan sem kann ekki mannleg samskipti og dr. Shepherd... ó já dr Shepherd

Fræðilega séð... o my god. Það eru engin skil milli medicine og chirurgiu. Það er eins og hver læknir sjái bara um einn sjúkling, EINN sjúkling, situr yfir honum allan daginn, come on, læknirinn situr yfir sjúklingi með enga heilastarfsemi í 6 klst-ir, til hvers eru eiginlega monitorar og sorry to say... hjúkrunarfræðingar?!!! halló! Nýi kandídatinn settur yfir akút teymið EINMITT! Annar nýr kandídat gerir thoracotomiu EINN inni á stofu án þess að hafa nokkurn tímann séð þannig... hvað varð um see one, do one, teach one?

En svo kyssir dr Shepherd dr Grey og ég er fallin, stelpan hefur yfirhöndina... ég get horft framhjá öllu þessu fræðilega fyrir smá rómaaaan.... já mamma RÓMAAAAN!!!!

Tuesday, September 11, 2007

Pæling

Af hverju er keppt í kvenna- og karlaflokkum í skák?

Sunday, September 9, 2007

stærðfræðinostalgía

Ég var að hjálpa frænku minni sem var að byrja í menntaskóla með algebru áðan. Mikið var það skemmtilegt. Ég sakna stærðfræði... af hverju fór ég í páfagaukalærdómsfag?

Lurkum lamin

Ég gekk 1. hluta Reykjavegar í gær. 19 km frá Reykjanesvita að Bláa Lóninu. Lögðum af stað í fallegu veðri, sól og fínerí. Svo kom smá úði... best að fara í jakkann... byrjaði að rigna... hlýtur að fara að stytta upp... rigndi meira... meira rok... úrhelli... úrhellisúrhelli... slagviðri...
Hef sjaldan orðið eins blaut og hrakin. Við Pétur og Embla litla vorum úrvinda. Komum loksins að Bláa Lóninu og keyptum okkur pylsu... Í dag erum við kvefuð og lurkum lamin.
Skemmtilegt eftir á samt :)
Svo asnaðist ég á djammið og djammaði til 7 í morgun. 7!
Af einhverjum orsökum eru augnlokin óvanalega þung núna.

Wednesday, September 5, 2007

Viðburðaríkur dagur í lífi aðstoðarlæknis

Læknaritari sagði mér áðan að það væri slegist um að vélrita nótur eftir mig uppi á læknaritaraherbergi því ég tala svo skýrt. Ég varð hrikalega ánægð... hmm.
My life is so fulfilling...

Tuesday, September 4, 2007

Af lækni

Ég er læknir. Mér finnst það eiginlega bara fyndið

Sunday, September 2, 2007

Af giftingum

Litli frændi minn sem er reyndar nákvæmlega 18 árum yngri en ég upp á dag spurði mig í sumar: "Berglind, hvað ertu eiginlega gömul?"
Ég: "27".
Hann horfði á mig hugsi í smástund og sagði svo: "Og af hverju ertu ekki búin að gifta þig?"

Tuesday, August 28, 2007

la moto

Fór á mótorhjól í gær. Fór ofsalega langt og ofsalega hratt. Ofsalega hættulegt en ofsalega skemmtilegt! Var ofsa vígaleg og ofsa töff

Sunday, August 26, 2007

Brúðkaup

Fór í ofsalega skemmtilegt brúðkaup í gær. Læknaparið frú Snorri og herra Guðný. Að öllum öðrum kjólum ólöstuðum þá var Guðný í fallegasta brúðarkjól sem ég hef nokkru sinni séð. Athöfnin yndisleg, maturinn bráðnaði uppi í brúðkaupsgestum, veislustjórarnir frábærir og lifandi tónlist hélt uppi stuði allt til enda. Frábær veisla.

En síðan Snorri Guðný fann
og hún honum síðan ann.
Halda í hendur, hvísla í eyra.
Fara í djúpan sleik.

Því að þeirra er framtíðin,
flögra um sem fiðrildin.
Þetta er væmið, en samt satt,
stöngin inn.

Eitt mjög fyndið, í athöfninni sat síðhærður maður og tók myndir/videomyndir í gríð og erg. Enginn kippti sér upp við það. Síðar kom í ljós að téður ljósmyndari var boðflenna, enginn þekkti hann. Hmmm... leynilegur aðdáandi eða einstakur áhugamaður um brúðkaup... maður spyr sig. Ég og Pétur ókum svo framhjá manninum fyrir tilviljun í dag, láðist þó að taka niður bílnúmerið...

Friday, August 24, 2007

men in uniform

Hvað er þetta með men in uniform?
Þessa dagana eru það slökkviliðsmenn með uppbrettar ermar sem koma hlaupandi með bráðveikt fólk inn á bráðamóttöku.
Jamm og jæja... eða kannski bara jamm jamm

Wednesday, August 22, 2007

Ljónsmakkinn

Í dag komst ég að því að á spítalanum er ég kölluð konan með hárið. Hmmm... Mér finnst Lafði Lokkaprúð skemmtilegra.

Tuesday, August 21, 2007

Lady Lovely Locks


Hver man ekki eftir Lafði Lokkaprúð? Mér fannst hún æðisleg. Hún var með einhverja töfra í hárinu á sér. Vonda stelpan reyndi alltaf að klippa lokk úr hári hennar en alltaf slapp Lafði Lokkaprúð.

Hjúkrunarfræðingur á spítalanum í dag líkti mér við Lafði Lokkaprúð. Mér fannst það æði.

Monday, August 20, 2007

Jarðskjálfti í Perú

og 500 manns látnir. Mestur mannskaði varð í Pisco og Ica. Ég var í Pisco fyrir 3 árum. Lítill sjávarbær... ég get eiginlega ekki ímyndað mér fólk liggja látið eins og hráviði um allan bæinn. Hræðilegt.

Sunday, August 19, 2007

Snæfellsjökull

Það er svolítið merkilegt með Snæfellsjökul, hann virkar miklu miklu stærri frá Bústaðaveginum en frá Eiðisgranda. Takið eftir þessu, í alvörunni.

Einhvers staðar úti í bæ

er maður með glóðarauga af mínum völdum. Já, ég kýldi mann. Það var reyndar alveg alveg óvart. Hann var bara svo óheppinn að vera með auga í hæð við olnbogann minn...

Thursday, August 9, 2007

Karen og Dabbi

Litla systir er flutt til London baby. Hún og kæró leigja fyrst um sinn herbergi af íslenskri konu sem er á Íslandi í sumar á meðan þau eru að leita sér að sinni eigin íbúð. Litla syss var svo að reyna að ná í þessa konu... en lenti í staðinn á tjattinu við Davíð nokkurn Oddsson... hahaha -> ýtið HÉR.

Mmmm...

Skyr með rjóma og krækiberjum. Þarf að segja meira?

Shoppermansweekend

Verslunarmannahelgin liðin. Fór í útilegu með m&p og frænkufjölskyldum frá fös til sun. Vorum í sólinni og rokinu á Suðurlandi. Rosa gaman. Skrapp síðan til Eyja á sun-kvöldið. Rosa gaman líka þar. Kannski of gaman. Gekk aðeins of hratt um gleðinnar dyr... :)

Saturday, July 21, 2007

Berglind moldvarpa

Ég er orðin moldvarpa. Hleyp um ganga spítalans á nóttunni, sef með eyrnatappa niðri í kjallara á daginn. Mold mold. Moldvarpa er svolítið fyndið orð.

Friday, July 20, 2007

Lúkas

Mér finnst þetta Lúkasar-mál stórmerkilegt. Þvílíkt og annað eins drama hefur aðeins sést í Guiding Light, já eða Bold, þar til nú. Séríslenskt Leiðarljós.

óléttir menn

Það er eitthvað við þessar Sýn2 auglýsingar... óléttir karlar. Mér finnst það eitthvað pínu creepy. Er ég ein um það?

Thursday, July 19, 2007

Blautt

Það er eitthvað blautt í loftinu í dag. Mig minnir að það heiti rigning.

Til lykke

Fór í eitt skemmtilegasta brúðkaup veraldar síðasta lau. Kristín og Kiddi eru orðin hjón, djúpu laugar hjón. Frú Stína stuð.
Gæsavideoið náttúrulega sló í gegn. Ætla að setja tengil á það hér fljótlega.

Tuesday, July 3, 2007

?

Í gær sá ég stelpu í gegnsæjum hvítum bol. Það er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að brjóstahaldarinn sat skakkur og önnur geirvartan brosti framan í mann. Á maður að láta bláókunnugt fólk vita af svona?
Það sem mér fannst þó verra var að miðinn var upp úr að aftan.

Sunday, July 1, 2007

Fimmvörðuháls

Fór Fimmvörðuháls í annað sinn í gær, þoka fyrstu 5-6 tímana en alveg þess virði þegar rofaði til og við sáum jöklana, Þórsmörk og langleiðina upp í Landmannalaugar. Frábær ferð og frábærir ferðafélagar.

Friday, June 29, 2007

Sumarið

er yndislegt. Yndislegt, yndislegt, yndislegt. Eyddi deginum í dag á Austurvelli í góðra frænku hópi. Ég og hin ferfætta fórum svo í fjöruferð í kvöld, kl hálf10, 14°C hiti og ég á hlírabol. Yndislegt.

Thursday, June 28, 2007

Besti vinur mannsins eða besti þræll hundsins

Ég er að passa hina ferfættu systur mína. Það er sko meira en að segja það. Ég hef aldrei verið ein með litlu prímadonnuna áður og jesús minn... það snýst allt um hundinn, er hundurinn búinn að fá hreyfingu í dag, er hundurinn búinn að fá að borða í dag, er hundurinn búinn að skíta í dag... Hún er samt orðin ótrúlega háð mér, sefur við hliðina á rúminu mínu, bíður eftir mér fyrir utan klósettdyrnar þegar ég er á klósettinu, ýlfrar og bíður við dyrnar þegar ég fer út. Greyið litla.

Svo má ekkert vera með hunda alls staðar. Annars staðar dauðskammast maður sín fyrir litla borgarhundinn. Ég fór með Emblu litlu í heimsókn á sveitabæ, auðvitað eru hundar ekki inni á sveitabæjum. Embla beið úti í bandi meðan við snæddum kvöldverð. Skyndilega heyrast skelfingargelt úti... 5 kýr höfðu komið til að kíkja á þennan furðulega gest og aumingja Embla vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, hvaða hrikalega skelfilegu risahundar voru þetta nú eiginlega? Hún hefur nú samt eytt um mánuði á hverju sumri á ferðalagi um ísland en þetta var nú eitthvað scary, ein úti á túni með 5 kúm!!! Síðar um kvöldið gekk húsfreyjan svo úr rekkju fyrir borgarhundinn. Já borgarhundurinn gat ekki verið einn um nóttina og gat ekki borðað kjúklinganammið sem henni var boðið því hún er með OFNÆMI fyrir því!

Er því skrýtið að maður velti fyrir sér hvort hundurinn sé besti vinur mannsins eða maðurinn besti þræll hundins?
Æ, mér þykir samt voða vænt um hana. :)

Road trip

Fór í road trip með Höllu og hinni ferfættu á mánudag. Heimsóttum Guðnýju, Sigrúnu, Þóru og Sólveigu norður á land. Ógeðslega gaman en jesús minn kuldinn!!! 1°C og rok við Kröflu meðan borgarbúar böðuðu sig í sólinni í 18 stiga hita! En ég baðaði mig bara í höfuðborgarMallorcaveðrinu í dag.
Heimsóttum Baldursheim, sveitabæinn hennar Sólveigar. Baldursheimur er með sérveg! Vegur nr 849! Héðan í frá verður Sólveig kölluð Solla 849.
Á mánudaginn fórum við í baðlónið í Mývatnssveit og spjölluðum þar við 3 Hollendinga. Á þri-kvöldið eldaði svo Þóra dýrindismáltíð fyrir okkur Höllu, Sólveigu og Ernu í fínu íbúðinni sinni á Akureyri.
Í dag fór ég svo í úrabúð á Laugaveginum að sækja úrin mín úr viðgerð og hitti þar fyrir Hollendingana úr baðlóninu í Mývatnssveit. Já Ísland er lítið og þeir fengu það beint í æð :)

Sunday, June 24, 2007

Gæsagangur

Ég gæsaði frænku mína í gær. Stórkostlegur dagur, stórkostlegt veður, stórkostleg gæs og stórkostlegar stelpur. Þetta var vægast sagt frábær dagur. Meira segi ég ekki. Kemur í ljós í ákveðnu brúðkaupi...

Friday, June 22, 2007

Súperþjónusta

Í dag fór ég glöð og kát í útivistarvöruverslun eina með útskriftarpeninginn minn með það að markmiði að eyða honum. Lenti á dreng sem vissi ekkert hvað hann var að tala um. Hefði eins getað beðið skó um aðstoð. Sleppti drengstaulanum bara lausum og fór að skoða sjálf. Þá bar þar að renglulegan ungan mann sem bauð fram aðstoð sína. Jú, jú... allt í lagi að prófa einhvern annan. Heyrðu hann var bara eins og alfræðiorðabók um útivistarvörur og þvílíkur munur. Það er eitthvað við fólk sem veit um hvað það er að tala... Það lá við að ég segði: hei, I have suddenly fallen in love with you, will you marry me? Ég sleppti því en gekk út með gullfallegan nýjan fallegan stóran fallegan göngupoka.
Nú horfi ég á göngupokann minn eins og systir mín horfir á tölvuna sína... sjá HÉR.

Thursday, June 21, 2007

Pirringur

Það á náttúrulega að svipta suma ökuleyfi... ekki vegna glæfraaksturs heldur vegna hægagangs og viðbragðsleysis. Ég fór niður í bæ áðan, allar götur lokaðar, óþolandi, og raðir alls staðar. Mikið afskaplega getur fólk farið hægt. Tók mig hálftíma að komast í ákveðna verslun. Þegar ég loksins stóð við afgreiðsluborðið og var að fara að borga... Veskið var ekki í töskunni! Sá það fyrir mér liggjandi á kommóðunni inni í anddyri heima. Helv... Ef eitthvað var enn meiri hægagangur í umferðinni á leiðinni heim... gleði gleði.

En út í alvöru gleðisálma: Hún BaraSara á afmæli í dag. Til hamingju með daginn, Sara! :)

Leggjabrjótur

Ég gekk Leggjabrjót í gærkvöldi með Pétri og Bjössa og náttúrulega hinni ferfættu systur minni. Við fórum á einum risabíl og einum litlum bíl. Við byrjuðum á að keyra á Þingvelli og skilja risabílinn eftir þar. Svo héldum við af stað á litla bílnum.... og festum hann, ofan á risarisarisastórum steini. Hann bara haggaðist ekki af steininum. Svo við lyftum bílnum. Já við LYFTUM bílnum af steininum, við þrjú. Ég hef trú á því að mínir miklu ofurkraftar hafi haft mikið að segja í þeim lyftingum. Restin af ferðinni gekk áfallalaust og var reyndar alveg frábær. Komum reyndar ekki í bæinn aftur fyrr en kl 3 í nótt... en hvað er það fyrir iðjuleysinga eins og mig og Bjössa. Aumingja Pétur hins vegar...

Tuesday, June 19, 2007

Af jeppagellu á Þingvöllum

Á sautjándanum fór ég í örlitla jeppaferð með honum föður mínum. Nú kann ég á diff lock, stabilizer, front lock etc etc etc auk þess sem ég kann að gera við dekk alveg sjálf. Mér finnst ég ógurleg töffarakona.
Í gær fórum svo ég og hin ferfætta systir mín í Skógarkotsheimsókn á Þingvelli. Þar var nú gott að vera, afgangar úr útskriftarveislu, pottur í sólinni og grill um kvöldið í góðra vina hópi. Hvað er betra en það?

Útskrift

Útskriftardagurinn var yndislegur, veislan í Paradís hjá afa var yndisleg, samkoman hér heima um kvöldið yndisleg og djammið var skemmtilegt. Hreint út sagt yndislegur dagur.
Takk fyrir mig, þið öll :)

Friday, June 15, 2007

Hippókratesar-eiðurinn

Í dag var okkur bekknum + mökum boðið í boð á vegum Læknafélags Íslands. Tilgangurinn var að skrifa undir Hippókratesar-eiðinn en hann er siðfræðilegur eiður sem læknar hafa skrifað undir síðan á 4. öld fyrir Krist. Það er svolítið gaman að því að íslenskir læknar skrifa allir undir eiðinn í sömu bókina. Því er hægt að fletta upp undirskriftum íslenskra lækna langt aftur í tímann.

Í íslenskri þýðingu eiðsins stendur m.a. eftirfarandi:

- Ég sver við Apolló lækni, við Eskuláp, við heilbrigðina, við Panakea og alla guði og gyðjur, er séu mér vitni, að ég mun kappkosta að halda þennan eið...
- Kennara minn í þessum fræðum gengst ég undir að virða til jafns við foreldra mína; deila með honum brauði mínu og fé ef hann er í fjárþröng, líta á venslamenn hans sem bræður mína og kenna þeim fræði mín endurgjaldslaust... (gæti orðið dýrt!)
- Ef ég held þennan eið trúlega og rýf hann aldrei, megi ég þá ævinlega öðlast góðan orðstír og njóta almennrar virðingar vegna lífernis míns og listar minnar, en gerist ég eiðrofi og griðníðingur, megi þá hið gagnstæða verða hlutskipti mitt.

Þetta hef ég nú skrifað undir.
Myndir HÉR.

Wednesday, June 13, 2007

Það er hættulegt

að vera duglegur. Ég var að moka áðan, já moka möl úr kerru. Já, ég stóð í kerrunni og já ég var auli og gekk fram á brúnina þannig að hún sporðreistist. Þetta hefur örugglega verið mjög skondin sjón. :)
En ég uppskar bólgið hné, aumingja hnéð. Og útskriftarkjóllinn er ekki nógu síður til að hylja bólgin hné. Hvernig getur svona gerst 2 dögum fyrir mikilvægan kjóladag? Eða betri spurning, af hverju er ég að moka möl 2 dögum fyrir mikilvægan kjóladag? Maður spyr sig.

Monday, June 11, 2007

Símavinurinn minn

Nýi klikkaði kínverski símavinur minn lætur mig ekki í friði. Hann hringir og hringir og sendir sms endalaust...

Sunday, June 10, 2007

Skrýtin

Í gær vaknaði ég í rúminu mínu í öllum fötunum OG kápunni UNDIR sænginni og höfuðið var fótamegin.

Saturday, June 9, 2007

Færeysk-íslensk orðabók

Sá þetta í Blaðinu:
hárfríðkari = hárgreiðslumaður
viðgerð = aðgerð
sálarhirðir = sálfræðingur
sjálfvbrúnaraviðgerð = tilbúin brúnka

Friday, June 8, 2007

Alvöru

Ég er að fara að vinna sem alvöru læknir eftir 3 vikur og 3 daga.
Shit.

Thursday, June 7, 2007

Dularfullt símtal

Ég fékk símtal í nótt. Eins og alltaf þegar ég er vakin af símanum er ég hálfrugluð... geri mér enga grein fyrir því hvað klukkan er, hvort ég hafi verið sofandi eða hvað.

Ég: "Halló".
Karlmaður á bjagaðri ensku: "Hello, who is this?"
Ég: "Ha?"
Hinn: "Who is this? You called me". Allt í einu tengdi ég... Númerið sem hafði hringt var kínverska númerið hennar Ástu sem býr í Kína. Ég hafði sent Ástu sms í tilefni afmælisins hennar í síðasta mánuði... greinilega ekki borist henni heldur einhverjum kínverskum brjálæðingi.
Ég: "No, I sent my friend an sms but I´ve obviously got the wrong number".
Hinn (skildi greinilega ekki alveg): "What´s your name?"
Ég enn í svefnrofunum: "Ha? Berglind. Are you from China?"
Hinn: "Yes... can I call you back in a moment?"
Ég enn rugluð: "Yes, bye". Leit á klukkuna, hún var 05:05. Fattaði að þetta númer hafði hringt í mig fyrir 2 mánuðum, ég hafði flett upp landsnúmerinu, séð að það var frá Kína og sett það inn í símann minn sem Ásta í Kína. Lagðist á koddann og steinsofnaði.

Nokkrum mínútum síðar hringir sama númer aftur.

Ég: "Hello... no you know what, you called me 2 months ago"
Hinn babblar eitthvað, svo: "What´s your name? What´s your nationality?"
Ég: "Berglind. Icelandic." Hvað er ég að gefa bláókunnugum manni svona upp um miðja nótt?!
Ég: "It´s nighttime here, I was sleeping"
Hinn: "Sorry, when can I call you again? It´s morning here."
Ég: " I was sleeping, it´s nighttime" Ein kolrugluð.
Hinn: "When can I call you again?"
Ég: "Ha? Why?"
Hinn: "I like to get to know new people all around the world."
Ég: "I don´t know. I have to go to sleep."
Hinn: "But when can I call you again..."
Ég: "Good night"

Ég á nýjan klikkaðan kínverskan símavin.

Saturday, June 2, 2007

Reykingabann

Ég kíkti aðeins út á lífið í gær. Vaknaði í morgun og það var ekki reykingalykt af hárinu, ekki reykingalykt af rúmfötunum, ekki reykingalykt af fötunum. YNDISLEGT!
Ég skil sjónarmið veitingamanna en ég ætla að vera sjálfselsk í skoðunum mínum á reykingabanninu. Yndislega reykingabann.

Fallega fólkið og Embla fóru svo á Móskarðshnúka í dag. Búið að vera á planinu í mörg ár, draumurinn rættist í dag.

Brjóst Íslands, Móskarðshnúkar des 2006

Friday, June 1, 2007

Aaaahhhh

Ég gekk út í morgun, vindurinn var ekki kaldur, það var lykt af nýslegnu grasi í loftinu... ummmm... Ég ELSKA sumarið. Væmið en satt.

Thursday, May 31, 2007

Sa-wat-dee KAA

Ég er búin með síðasta prófið í háskólanum, vúhú! Fór í bestu útskriftarferð ever og kom svo heim í íslenskt sumar. Gæti lífið verið betra?

Þetta síðasta próf okkar í HÍ reyndist hin mesta skemmtun eða hmmm... svona allavega fyrir utan prófið sjálft sem var skelfilegt þá var öll umgjörð þess hin spaugilegasta enda hannað af USA-fólki. Bannað að hafa með sér nokkurn mat og drykk inn í prófið, bannað að hafa varasálva og rakakrem, þetta var eins og í flugvél. Prófyfirsetufólkið las upp allar reglur og fyrirmæli á ensku með sínum yndislega íslenska hreim. Yfirsetumaðurinn sagði okkur svo frá því að bandarískir umsjónarmenn prófsins hefðu komið hingað til lands til að skoða aðstæður og ekkert litist á að mörg hundruð kílóa læsti eldvarnarskápurinn sem prófið þurfti að geymast í skyldi ekki vera boltaður upp við vegginn.

Daginn eftir var svo lagt af stað í skemmtilegustu og yndislegustu hópferð sem ég hef á ævi minni farið í. Þetta var vægast sagt frábært. Vorum 28 saman og samhentari hópur er vart til. Hittumst sem dæmi á hverju kvöldi kl 8 í lobbyinu og fórum öll saman út að borða í tælenska hitanum, svitanum og rakanum.

Ég ætla að skrifa ferðasöguna hér í þessa færslu síðar... meira svona svo að ég muni hvað við gerðum (amk þann hluta ferðarinnar sem ég man... hahaha). Áhugasamir geta skemmt sér við lesturinn... þegar ég loksins nenni að koma frá mér ferðasögunni.
To be continued...

Thursday, May 10, 2007

Eiríkur Hauksson

var bara hann sjálfur á sviðinu og djö... var hann töff. Hann er nýja idolið mitt. Ég get líka auðveldlega gert hárið á mér eins og hans.

Over and out
Berglind soon-to-be ex-nemandi við Háskólann

Yndislegt

Klikkið HÉR, alveg frábært...
Yndislegt þegar tveir áhugamenn um "jaðaríþróttir" ná saman.


Annars á litla syss afmæli í dag... 16 ára! Jesús, hvað tíminn rýkur áfram alltaf hreint.

Til hamingju, Steinunn. Og já... má ég eiga minn eigin gatara %&#$?!!!

Tuesday, May 8, 2007

Þetta finnst mér sniðugt

Úr Fréttablaðinu í dag:
"Tveir búðarhnuplarar fengu óvenjulegan dóm á dögunum fyrir að stela úr búðinni Wal-Mart í bænum Attalla í Alabama. Þeir voru dæmdir til að standa fyrir utan búðina í fjórar klukkustundir tvo laugardaga í röð með spjöld þar sem á stóð: „Ég er þjófur, ég stal úr Wal-Mart", eða sitja að öðrum kosti í fangelsi í 60 daga."

Ég sé þá alveg fyrir mér...

Monday, May 7, 2007

Taugarnar

Það fer í taugarnar á mér að klukkan á þessu bloggi er vitlaus og ég get ekki breytt henni.
... kannski er það bara af því ég er í prófum.
... kannski er ég bara svona skrýtin.

Sunday, May 6, 2007

Ný kona

Ég er ný og breytt kona (eða stelpa, ég veit það ekki, erum við ekki orðnar konur?). Ég vaknaði kl 8:15 á sunnudagsmorgni, fór út að hlaupa og í sund. Allt fyrir kl 10:30 á SUNNUDAGSMORGNI. Já, þið eigið ekki eftir að þekkja mig aftur.
Krakkar í sundi eru annars svo mikil krútt, þau eru þarna öll saman í sturtu, strákar og stelpur og vita ekki að þau "eiga" að vera feimin hvort við annað. Krúttlegt.

Svo hjólaði ég út í búð í hádeginu. Það er svo langt síðan ég hef hjólað. Það er ógeðslega gaman að hjóla.

Saturday, May 5, 2007

Gleðistund

Stundum, en bara stundum, kemur það fyrir að ég nenni ekki að læra. Þá fer ég upp (mér finnst ég alltaf vera að fara upp) og trufla Steinunni. Nú var Steinunn að horfa á Friends... þætti sem ég hef ALDREI SÉÐ! Ótrúlegt! Og mikið ógeðslega var það gaman. Það þarf ekki mikið til að gleðja Berglind.

Friday, May 4, 2007

Njálgur...

... kominn í Berglind. Ástæðan: Of mikið lesið af kvensjúkdómum í dag.
Get ekki lengur setið kyrr. Vildi að þetta próf væri á morgun.
En... eftir viku verð ég búin! Eftir viku verð ég í ofsa fínum kvöldmat með ofsa mikið af fínu víni á leiðinni á djammið, að fara til Tælands daginn eftir og eftir að pakka. :) Hið ljúfa líf.

Annars hefur það ekki góð áhrif á mann að skoða of mikið af myndum af krabbameinum hið neðra. Ég var búin að setja hér link á þannig myndir en ég tók hann út af góðmennsku einni saman. Ef fólk þarf ekki að læra að greina þannig þá á það aldrei að þurfa að sjá þannig. Horfið frekar á Hostel e. Eli Roth.

Wednesday, May 2, 2007

Já, já...

... ég veit, ég veit. Það er miðvikudagskvöld, 9 dagar í próf og ég á að vera að læra. Einmitt þá er svo auðvelt að láta hugann reika...

Fór að rifja upp London ferð okkar systranna og mömmu í haust. Sjáið hana litlu systur mína, svona var hún, höstlaði bara alla leikarana í mamma mia á einu bretti:

Tuesday, May 1, 2007

Kökuboð

Afi minn á afmæli í dag og crazy family mætti náttúrulega í Paradís. Við bara getum ekki verið eðlileg og mikið er það nú skemmtilegt! Myndin er nú reyndar frá crazy-jólum. Ansi er annars gott að geta farið í svona kökuboð í prófalestri. Umm... fylla á orkubirgðirnar. ;)

Sjá myndir af crazy family og öðrum gestum HÉR.

Sunday, April 29, 2007

Eitt próf

Ég á bara eitt próf eftir í háskólanum. Eða vonandi bara eitt...!!! Ég reyni að minna mig á það reglulega!
Þetta er alltaf búinn að vera eitthvað svo hrikalega fjarlægur áfangi og svo blasir hann núna skyndilega við. Eins og mér finnst nú gaman í skóla þá er maður líka orðinn svolítið þreyttur á endalausu samviskubiti yfir að vera ekki alltaf að læra. Það verður líka ansi gaman að geta glatt budduna um hver mánaðarmót. Glöð budda - glöð Berglind.

Friday, April 27, 2007

Tal

Ég sló talhraðamet í gærkvöldi, held ég hafi aldrei talað eins hratt á ævinni.
Við Pétur vorum sem sagt að segja frá valnámskeiðinu okkar í Perú á korteri, já 15 mínútum! Ef einhver hefur lesið perú-bloggin þá getur sá hinn sami rétt ímyndað sér yfirferðina...

Wednesday, April 25, 2007

Ég er hætt að læra

Einstaklega áhugavert: smellið HÉR (public improvement film)
Og mér finnst kettlingar æðislegir...

ahhh....

... Friends eru alltaf jafnmikill styrkur í erfiðum próflestri...

Tuesday, April 24, 2007

Fabulous í Köben

Já við vorum fabulous í Köben, ógeðslega fabulous. Fórum bara posh út að borða, versluðum bara posh föt. Vorum ógeðslega posh þar til við misstum kúlið og hlógum óstjórnlega mikið í siglingu á Nyhavn þegar einn gangandi vegfarandinn þurfti afskaplega mikið á WC og ákvað að losa sig við nokkra bjóra við bakkann akkúrat þegar báturinn okkar sigldi framhjá. Einstaklega skemmtilegt, haha.
Það er annars ótrúlegt hvað mun hærri prósenta danskra karlmanna er myndarleg en hér á Fróni. Ætli það sé hægt að flytja þá inn?

En... myndir HÉR.

Sunday, April 15, 2007

Bloggiblogg

Þetta á nú ekki að verða eitthvað risablogg. Meira hugsað sem tenglastaður. En hver veit nema ýmiss konar vísdómur læðist inn af og til...